Öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama er sagður vera svo gott sem búinn að ákveða varaforsetaefni sitt og hefur ákveðið flókna áætlun sem fylgt verður eftir þegar hann tekur af skarið og tilkynnir ákvörðun sína. Fréttaskýrendur vestan hafs telja sig vissa um þá þrjá frambjóðendur sem valið stendur á milli.
Athygli vekur að Hillary Clinton er ekki á þeim lista. Fréttaskýrendur á The New York Times telja að öldungadeildarmaðurinn Evan Bayh frá Indiana, Ríkisstjórinn Tim Kaine frá Virginia og öldungadeildarþingmaðurinn Joseph R. Biden Jr. frá Delaware séu líklegastir til að hreppa hnossið.
Seint í gærkvöldi hafði Obama ekki tilkynnt hver yrði fyrir valinu hvorki almenningi né heldur neinum útvöldum en talið er mjög líklegt að snemma í fyrramálið komi tilkynningin og að þá verði hörðustu stuðningsmenn Obama fyrstir til að fá fregnirnar.
Samkvæmt The New York Times mun Obama hafa tekið ákvörðunina á meðan hann var í fríi á Hawaii og telja fréttaskýrendur líklegt að Obama taki engar áhættu og velji traust varaforsetaefni.