Karlmaður, sem var sakfelldur fyrir að valda lestarslysi í Los Angeles árið 2005, fékk í dag ellefu lífstíðardóma án möguleika á náðun. Ellefu manns létu lífið í slysinu og 180 særðust.
Juan Manuel Alvarez, 29 ára, var sakfelldur í júní eftir tveggja mánaða réttarhöld. Alvarez skildi bíl sinn eftir á járnbrautarteinum í úthverfi borgarinnar. Lest sem var á leið til Los Angeles lenti á bíl Alvarez og fór útaf sporinu og skall saman við aðra lest sem kom úr gagnstæðri átt.
Lögfræðingar Alvarez segja að hann hafi ætlað að fremja sjálfsmorð en snúist hugur og ekki getað fært bíl úr stað.
Saksóknarar sögðu Alvarez hafa valdið slysinu af ásettu ráði.