Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem birtar voru í dag hafa þau straumhvörf orðið í forsetakosningabaráttunni í Bandaríkjunum að John McCain hefur náð forskotinu af Barack Obama, og er álitinn munu ná betri tökum á efnahagsmálum.
Samkvæmt niðurstöðunum styðja 46% líklegra kjósenda McCain, en 41% styður Obama. Könnunin var gerð fyrir Reuters-fréttastofuna. Í samskonar könnun í síðasta mánuði hafði Obama sjö prósentustiga forskot.
Nú hefur McCain níu stiga forskot þegar spurt er um hvor frambjóðandinn kjósendur telji að sé betur í stakk búinn til að takast á við efnahagsvandann. Segjast 49% hafa meiri trú á McCain, en 40% á Obama.