Norsk stjórnvöld segja, að Rússar hafi tilkynnt þeim að þeir ætli að slíta öll hermálatengsl sín við NATO. Hefur AP fréttastofan eftir talsmanni norska varnarmálaráðuneytisins, að sendiráð landsins í Moskvu hafi fengið símtal frá rússneska varnarmálaráðuneytinu þar sem tilkynnt var að Rússar ætluðu að frysta alla hermálasamvinnu við NATO og lönd sem tengjast bandalaginu.
Fram kom í símtalinu, að bréfleg staðfesting á þessu myndi berast bráðlega.
AP náði ekki tali af rússneskum embættismönnum vegna þessa og embættismenn í höfuðstöðvum NATO sögðust ekki hafa fengið neinar slíkar tilkynningar.
Utanríkisráðherrar NATO gagnrýndu Rússa harðlega á fundi sínum í gær. Í ályktun fundarins voru Rússar m.a. átaldir fyrir að beita óhóflegu vopnavaldi. Þá var ákveðið að fresta fundum NATO-Rússlandsráðsins þar til Rússar uppfylltu ákvæði friðarsamkomulags, sem forsetar Rússlands og Georgíu skrifuðu undir.