Sænskir kennarar illa upplýstir um helförina

Í Jerúsalem í Ísrael er minnisvarði um helförina.
Í Jerúsalem í Ísrael er minnisvarði um helförina. Reuters

Sænskir kennarar vita lítið um helförina svonefndu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, ef marka má rannsókn Forum för Levande Historia í Svíþjóð. Um 70% kennara í grunn- og framhaldsskólum svöruðu aðeins þremur af 11 spurningum rétt um helförina.

Alls tók 5081 kennari krossapróf um helförina. Aðeins tveir svöruðu öllum spurningunum rétt og 14 svöruðu öllu nema einni spurningu rétt.

„Rétt rúmlega 70% kennaranna svöruðu a.m.k. átta spurningum af 11 vitlaust,“ segir í rannsóknarniðurstöðunum. Þar segir jafnframt að draga megi þá ályktun að kennararnir viti lítið um helförina.

Aðeins einn af hverjum 20 kennurum í Svíþjóð vissi hversu mörg gyðingabörn voru myrt í Evrópu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, en rétta svarið er yfir 80%. Þá sögðu um 40% kennara að gúlagið hafi verið útrýmingarbúðir nasista.

Um helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust hafa kennt í 15 ár eða lengur.

Næstum allir kennararnir, eða 98%, segja að það sé mikilvægt að fræða börn um helförina og afleiðingar hennar. Um 40% þeirra sögðu hins vegar að þeir hefðu ekki fengið neina fræðslu um helförina þegar þeir voru í kennaranámi.

Ríkisstjórn Svíþjóðar setti Forum för Levande Historia á laggirnar árið 2003, en það hefur það hlutverk að fjalla um helförina, umburðarlyndi, lýðræði og mannréttindi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert