Stjórnvöld í Póllandi og Bandaríkjunum skrifuðu í dag undir samning, um að heimila Bandaríkjunum að koma fyrir hluta af eldflaugavarnakerfi í Póllandi. Samningarnir náðust fyrir sex dögum um að 10 bandarískar flaugar verði settar upp um 180 km frá landamærum Póllands og Rússlands.
„Þetta mun auðvelda okkur að fást við nýjar ógnir á 21. öld, sem stafa frá langdrægum flaugum landa á borð við Íran og Norður-Kóreu," sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hún hafði skrifað undir samninginn í Varsjá ásamt Radoslaw Sikorsk, utanríkisráðherra Póllands.
Rússar hafa gagnrýnt samninginn harðlega og hóta að efla kjarnorkuviðbúnað sinn. Bandaríkjamenn fullyrða hins vegar að varnarkerfinu sé ætlað að verjast mögulegum kjarnorkuárásum frá óvinveittum ríkjum.