Vill vindmyllur í New York

Til stendur að virkja vindaflið í New York.
Til stendur að virkja vindaflið í New York. mbl.is/Einar Falur

Borgarstjóri New York, Michael Bloomberg leggur til að vindmyllur verði settar á þök háhýsa og hæstu brýr borgarinnar en það mun vera liður í átaki sem miðar að því að gera borgina umhverfisvænni.

Borgarstjórinn segist ætla að hafa samband við einkafyrirtæki og fjárfesta og fá þá í lið með sér til að rannsaka hvernig væri hægt að koma slíkum vindknúnum túrbínum fyrir í borginni.

Fyrr í vikunni tilkynnti hann að formlegt átak væri hafið og búið væri að hafa samband við fyrirtæki víða um Bandaríkin og aðstoðar leitað við að finna leiðir til að koma upp vistvænum raforkustöðum víða um borg sem nota vind, sól eða vatn til að framleiða rafmagn.

Það myndi taka mörg ár að breyta New York í vinknúna raforkustöð en Bloomberg sem á 18 mánuði eftir af kjörtímabilinu segist vera staðráðinn í að koma verkefninu á koppinn.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert