Rússar grófu skotgrafir og byggðu sterkbyggðar víggirðingar á lykilstöðum í Georgíu í dag á sama tíma og langar raðir skriðdreka héldu heim á leið annars staðar. Rússar ákveða með mikilli nákvæmni hvernig þeir hyggjast fara að samkomulagi um að draga liðsaflann til Rússlands.
Háttsettur rússneskur herforingi sagði að tíu dagar gætu liðið áður en meirihluti hersins verður kominn aftur til Rússlands.
Rússneski forsetinn, Dmitrí Medvedev, lofaði að herinn myndi draga sig til baka til Suður-Ossetíu og svæðisins umhverfis héraðið fyrir föstudag. Hermenn virðast þó ekki vera að flýta sér og bendir ýmislegt til þess að Rússar hugsi sér að vera eitthvað um kyrrt í landinu sem hallt er undir Vesturlönd.
Rússar tóku sér meðal annars stöðu við aðalvegin inn í hafnarborgina Poti, grófu þar skurði og settu upp víggirðingar. Þeir tóku einnig yfir brú sem liggur að borginni.
Embættismenn í Poti segir Rússa hafa farið ránshendi um borgina undanfarna viku. Ljósmyndari frá AP og sjónvarpslið voru stöðvuð við borgina af rússneskum hermönnum og neydd til að afhenda kort úr myndavélum og upptökuspólur.
Rússar hafa sömuleiðis ekki sleppt hendinni af borginni Gori eða þorpinu Igoeti sem eru 50km vestur af höfuðborginni Tbilisi. Báðir staðir liggja að aðalveginum sem liggur frá austri til vesturs í Georgíu.
Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Bryan Whitman, sagði að flutningur Rússa frá Georgíu væri til málamynda.
Í dag voru nokkur þorp Georgíufólks brennd til grunna í Suður-Ossetíu, þrátt fyrir að margir dagar séu síðan að bardögum lauk. Sumir Ossetar á svæðinu segjast ekki reiðubúnir að búa lengur í nábýli við Georgíumenn.