Húseignir McCains vatn á myllu Obama

Barack Obama í hnetubúð í Petersburg í Virginíu í dag.
Barack Obama í hnetubúð í Petersburg í Virginíu í dag. Reuters

Vandræðagangur Johns McCains, forsetaframbjóðanda bandaríska Repúblikanaflokksins, vegna upplýsinga um ríkidæmi hans og húseignir, er himnasending fyrir Barack Obama, frambjóðanda Demókrataflokksins. Framboð Obama var ekki höndum seinna að birta auglýsingar í sjónvarpi í öllum Bandaríkjunum í dag þar sem gefið er í skyn að McCain sé úr tengslum við venjulega Bandaríkjamenn.

Í viðtali við vefinn Politico.com í morgun var McCain spurður hvað hann ætti mörg hús. „Ég held... Ég læt starfsfólk mitt hafa samband við þig," var svarðið.

Vefurinn PolitiFact.com kannaði málið í kjölfarið og segir að McCain eigi sjjö hús, sem flest eru skráð á Cindy, eiginkonu hans. Cindy er vellauðug en  talið er að hún hafi erft um 100 milljónir Bandaríkjadala eftir föður sinn sem rak bjórdreifingafyrirtæki í Arizona.

Á kosningafundi í dag rifjaði Obama upp nýleg ummæli McCains þegar hann sagðist telja, að aðeins þeir sem hefði 5 milljónir dala eða meira í árstekjur teldust ríkir.

„Það er ekki skrítið, að sá sem veit ekki hvað hann á mörg hús og heldur að aðeins þeir sem þéna 5 milljónir dala eða meira séu ríkir, haldi að efnahagur landsins sé traustur," sagði Obama.  „Það er grundvallar munur á heimi Johns McCains og venjulegs fólks í Bandaríkjunum."

Árstekjur McCains voru 407 þúsund dalir á síðasta en árstekjur Cindy á árinu 2006 voru um 6 milljónir dala.  Árstekjur Obama og Michelle, eiginkonu hans, voru 4,2 milljónir dala á síðasta ári.

Obama sagði í samtali við blaðið USA Today í dag, að hann væri búinn að ákveða hvern hann vildi fá sem varaforsetaefni. Hann hefði leitað til sjálfstæðs hugsuðar, sem væri tilbúinn til að taka að sér forsetaembættið. Gert er ráð fyrir að Obama tilkynni val sitt á laugardag.

Politico.com

PolitiFact.com

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka