Húseignir McCains vatn á myllu Obama

Barack Obama í hnetubúð í Petersburg í Virginíu í dag.
Barack Obama í hnetubúð í Petersburg í Virginíu í dag. Reuters

Vand­ræðagang­ur Johns McCains, for­setafram­bjóðanda banda­ríska Re­públi­kana­flokks­ins, vegna upp­lýs­inga um ríki­dæmi hans og hús­eign­ir, er himna­send­ing fyr­ir Barack Obama, fram­bjóðanda Demó­krata­flokks­ins. Fram­boð Obama var ekki hönd­um seinna að birta aug­lýs­ing­ar í sjón­varpi í öll­um Banda­ríkj­un­um í dag þar sem gefið er í skyn að McCain sé úr tengsl­um við venju­lega Banda­ríkja­menn.

Í viðtali við vef­inn Politico.com í morg­un var McCain spurður hvað hann ætti mörg hús. „Ég held... Ég læt starfs­fólk mitt hafa sam­band við þig," var svarðið.

Vef­ur­inn PolitiFact.com kannaði málið í kjöl­farið og seg­ir að McCain eigi sjjö hús, sem flest eru skráð á Cin­dy, eig­in­konu hans. Cin­dy er vellauðug en  talið er að hún hafi erft um 100 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala eft­ir föður sinn sem rak bjórdreif­inga­fyr­ir­tæki í Arizona.

Á kosn­inga­fundi í dag rifjaði Obama upp ný­leg um­mæli McCains þegar hann sagðist telja, að aðeins þeir sem hefði 5 millj­ón­ir dala eða meira í árs­tekj­ur teld­ust rík­ir.

„Það er ekki skrítið, að sá sem veit ekki hvað hann á mörg hús og held­ur að aðeins þeir sem þéna 5 millj­ón­ir dala eða meira séu rík­ir, haldi að efna­hag­ur lands­ins sé traust­ur," sagði Obama.  „Það er grund­vall­ar mun­ur á heimi Johns McCains og venju­legs fólks í Banda­ríkj­un­um."

Árs­tekj­ur McCains voru 407 þúsund dal­ir á síðasta en árs­tekj­ur Cin­dy á ár­inu 2006 voru um 6 millj­ón­ir dala.  Árs­tekj­ur Obama og Michelle, eig­in­konu hans, voru 4,2 millj­ón­ir dala á síðasta ári.

Obama sagði í sam­tali við blaðið USA Today í dag, að hann væri bú­inn að ákveða hvern hann vildi fá sem vara­for­seta­efni. Hann hefði leitað til sjálf­stæðs hugsuðar, sem væri til­bú­inn til að taka að sér for­seta­embættið. Gert er ráð fyr­ir að Obama til­kynni val sitt á laug­ar­dag.

Politico.com

PolitiFact.com

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert