Kálfurinn Colin á skammt eftir

Dýralæknar hafa tekið þá ákvörðun að drepa yfirgefinn hnúfubakskálf sem er nær dauða en lífi af vanværingu. Kálfurinn hefur ruglast á móður sinni og bátum skammt norður af Sydney og reynt að sjúga þá.

Samkvæmt AP fréttastofunni ber kálfurinn einnig þess merki að hafa lent í árás hákarla og er hann mikið særður og því er talið ólíklegt að hann nái sér á strik.

Kálfurinn nefndur Colin

Ástralskir fjölmiðlar hafa fylgst náið með örlögum kálfsins sem þeir hafa nefnt Colin allt frá því að fyrst sást til hans fyrir utan Sydney á sunnudaginn var.

Ákvörðunin um að slá dýrið af hefur mætt hörðum mótmælum og hefur hópur fólks sem vill bjarga Colin hannað tæki sem ætlað er að koma mjólk í kálfinn.

Tilraunir til að koma kálfinum aftur út á opið hafssvæði hafa mislukkast og hafa sjávarlíffræðingar og dýralæknar verið sakaðir um að leggja ekki nógu hart að sér við björgunartilraunirnar.

Ákveðið hefur verið að skjóta deyfilyfi í kálfinn, draga hann í land og sprauta þar banvænum lyfjaskammti beint í hjarta hans þar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert