Bróðir Obama fátækur einsetumaður

Barack Obama á bróður sem býr í skúr í Kenía.
Barack Obama á bróður sem býr í skúr í Kenía. AP

Hálfbróðir Baracks Obama segir forsetaframbjóðandann skammast sín fyrir ættartengslin því bróðirinn býr við mikla fáttækt í kofabyggð í Afríkuríkinu Kenía. Frá þessu skýrir ítalska útgáfan af tímaritinu Vanity Fair.

Tímaritið segist hafa leitað uppi George Hussein Onyango Obama sem býr í niðurníddum kofa í bænum Huruma í útjaðri Nairobi þar sem ofbeldisglæpir eru ákaflega algengir.

George Obama er 26 ára gamall, yngstur af sjö hálfbræðrum bandaríska forsetaframbjóðandans. „Það veit enginn hver ég er," sagði George í viðtali við tímaritið.

George sagði að hann lifði á innan við 80 íslenskum krónum á mánuði og nefndi aldrei hinn heimsfræga bróður sinn við nokkurn mann. „Ef einhver spyr mig út í eftirnafnið segi ég að við séum ekki skyldir. Ég skammast mín og ég bý eins og einsetumaður. Það veit enginn að ég er til," sagði George við Vanity Fair.

Kofinn sem George býr í mun vera fimm fermetrar og segist George einungis hafa hitt Barack tvisvar sinnum.  Einu sinni þegar hann var fimm ára og 2006 þegar Obama ferðaðist um Afríku.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka