Litla hafmeyjan verður 95 ára

Litla hafmeyjan í Kaupmannahöfn.
Litla hafmeyjan í Kaupmannahöfn. mbl.is

Hún hefur hímt á steini sínum í öllum veðrum undanfarin 95 ár og á morgun verður bronsstyttan Litla hafmeyjan í Kaupmannahöfn heiðruð með lúðrablæstri og sundmeyjum sem munu leika listir sínar henni til heiðurs.

Í Berlingske Tidende er hún mærð í grein þar sem hún er sögð fangi milli tveggja heima, votlendis og fastlandsins og að hún horfi löngunaraugum út til hafs en haldi þrátt fyrir það að laða til sín kaupmáttuga ferðamenn í löngum röðum.

Hún var fullsteypt vorið 1911 og er verk myndhöggvarans Edvard Eriksen sem var hálf íslenskur, móðir hans var Svanfríður Magnúsdóttir frá Langadal í Ísafjarðardjúpi sem giftist dönskum skósmið, Martin August Eriksen.

Litla Hafmeyjan var ekki sett á þann stað sem hún hvílir á nú fyrr en í september 1914.

Hún hefur alloft verið skotmark skemmdarvarga, fékk til að mynda rauðan hárlit 1961 og síðan var hún gerð höfðinu styttri í fyrsta sinn 1964 og það höfuð hefur ekki séð dagsins ljós síðan. Nýtt höfuð var grætt á meyjuna og það fjarlægt af ungum skemmdarvörgum 1998 en því var skilað þremur dögum síðar.

Hún átti líka systur í Reykjavíkurtjörn sem var sprengd í tætlur og var aldrei endurreist enda tákn hinna dönsku nýlenduherra.

Síðar fékk Litla hafmeyjan við Löngu línu í Kaupmannahöfn ný hné, nefbrodd og varir er henni hafði verið kollsteypt af stalli sínum eina nótt 2003.

Hún hefur einnig verið færð í hin ýmsu klæði, norskar fótboltatreyjur, alklæðnað múslímakvenna og höfuðbúnað þeirra að auki og oft hefur hún verið böðuð í málningu, yfirleitt í dönsku fánalitunum og á baráttudegi kvenna var settur gervilimur í hönd hennar.

Samansett úr tveimur konum 

Um styttuna segir Guðlaugur Arason í bókinni Kaupmannhöfn ekki bara Strikið: „Skömmu eftir að Eriksen var kominn að Charlottenborg, tók hann að sér að móta hafmeyju fyrir Jakobsen bruggara, eiganda Carlsberg. Fyrirmyndin átti að vera ballerínan Ellen Price, sem var prímadonna við Konunglega leikhúsið. Féllst prímadonnan á að sitja fyrir, en þegar hún komst að því að hún yrði að vera nakin og brjósta sig fyrir myndhöggvaranum, sagði hún nei.

Vandaðist nú málið hjá Vestfirðingnum sem dó þó ekki ráðalaus, heldur fékk Eline eiginkonu sína til að ljá líkamann. Andlitið sýnir aftur á móti prímadonnuna Ellen Price. Þetta heimskunnar tákn Kaupmannahafnar er því sett saman úr tveimur konum og því ekkert skrítið þótt hausinn tolli illa á búknum. 

Litla hafmeyjan hefur mátt þola ýmsar árásir.
Litla hafmeyjan hefur mátt þola ýmsar árásir. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert