Samsæriskenningar um ákærur

Reuters

Forseti Súdans segir í viðtali í dag að kærur á hendur honum vegna þjóðarmorðs séu hluti af áætlun um að steypa honum af stóli og skipta landinu upp í fylkingar.

Forsetinn, Omar al-Bashir, segir að öflin að baki alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum leitist við að koma honum frá völdum áður en kosningar verða haldnar á næsta ári.

Leiðtoginn sagði ekki hver þessi öfl væru en í viðtalinu gagnrýndi hann einnig harðlega stefnu Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum og sakaði Washington um að reyna að veikja Arabaríkin með hagsmuni Ísraels í huga.

Saksóknari við dómstólinn í Haag lagði fram kærur á hendur forsetanum þann 14. júlí og sakaði hann um dráp og nauðgun í Darfúr héraði.

Al-Bashir sagði að Súdan ætti í viðræðum við Bandaríkjamenn um hvernig væri best að taka á ástandinu í Darfúr en sakaði þá samt um að vilja skipta landinu upp svo þeir næðu valdi yfir náttúrulegum auðlindum Súdans.

Hann sagði að mikið af olíu væri að finna í Darfúr og að Súdan hefði ekkert á móti því að deila þessari auðlind. Þeir vildu hins vegar ekki að Bandaríkjamenn hirtu alla olíuna.

Forsetinn sagði að öflin að baki dómstólnum óttuðust kosningarnar sem hann hefur lofað í enda ársins 2009. Þær kosningar myndu verða þær frjálsustu og lýðræðislegustu sem haldnar hefðu verið í landinu og myndu ljá stjórn hans lögmæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert