Túnisbúi, sem grunaður var um að hafa ætlað að myrða danska teiknarann Kurt Westergaard er farinn úr landi, samkvæmt upplýsingum frá dönsku lögreglunni. Tveir Túnisbúar voru handteknir þann 12. febrúar þar sem talið var að þeir hafi ætlað sér að myrða teiknarann vegna skopteikninga sem hann teiknaði af Múhameð spámanni og birtar voru í Jótlandspóstinum árið 2005.
Hvorugur þeirra var dæmdur í málinu en ákveðið að vísa þeim úr landi. Samkvæmt frétt á vef Politiken er hinn Túnisbúinn enn í Danmörku. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fór maðurinn af fúsum og frjálsum vilja úr landi.