Barack Obama, forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins, hefur valið Joseph Biden, öldungadeildarþingmann, sem varaforsetaefni sitt, að því er kemur fram í SMS, sem framboð Obama hefur sent til stuðningsmanna frambjóðandans.
„Barack hefur valið Joe Biden sem varaforsetaefni okkar," segir í skilaboðunum.
Þar eru stuðningsmenn Obama einnig hvattir til að fara á vefsíðu framboðsins í kvöld þar sem sýnt verður beint frá kosningafundi í Springfield en þar munu frambjóðendurnir koma fram saman.
„Látið þetta ganga," segir síðan.
Joe Biden er 65 ára og hefur setið í öldungadeild Bandaríkjanna fyrir Delaware í sex kjörtímabil. Hann er formaður dómsmálanefndar öldungadeildarinnnar og situr í utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings. Hann hefur tvívegis boðið sig fram sem forseta, fyrst 1988 og einnig nú en dró sig til baka í janúar eftir fyrstu forkosningarnar.