Rússar vakta hafnarborgir

Reuters

Háttsettur rússneskur herforingi sagði í morgun að her Rússa myndi halda áfram að hafa eftirlit með mikilvægum georgískum hafnarborgum þrátt fyrir að þær liggi fyrir utan öryggissvæði þau sem Rússar segjast mega vera á.

Yfirlýsingin kemur einum degi eftir að Rússar segjast hafa dregið lið sitt til baka frá Georgíu, í samræmi við vopnahléssamkomulag.

Rússar túlka samkomulagið þannig að þeir hafi heimild til að hafa verulegan herstyrk í Georgíu, nokkuð sem Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar hafa mótmælt harðlega.

Rússar hafa dregið sig til baka frá Gori og streyma nú íbúar aftur til borgarinnar eftir að hafa flúið hana tveimur vikum áður. Mikið óskipulag er á svæðinu og reynir georgíska lögreglan að koma á einhverju skipulagi frá bráðabirgða stöðvum. Degi áður voru Rússar að gera slíkt hið sama frá stöðvum sem staðsettar voru í hring umhverfis borgina.

Íbúar sem snúa til baka koma að borg þar sem mikil eyðilegging hefur orðið vegna sprengja, matarskortur ríkir og sömuleiðis óvissa og angist.

Surman Kekashvili, 37 ára, varð um kyrrt í Gori og leitaði skjóls í kjallara eftir að rússnesk sprengja lagði íbúð hans í rúst. Fyrir nokkrum dögum reyndi hann að grafa þrjá ættingja sína sem látið höfðu lítið í sprengingnum. Hann tók þá líkamshluta sem hann sá og gróf grunna gröf sem hann þakti svo með brunnu spýtnabraki, steini og brotajárni.

Nágranni hans, eldri kona, missti allt í árásunum og heillegasti hluti íbúðarinnar er á stærð við fataskáp. Dvelur hún þar.

Nokkur þúsund mótmælendur fóru út fyrir borgina í dag að skotgröfum Rússa og veifuðu georgískum flöggum. Einhverjir hermenn fóru upp úr gröfunum og virtu mótmælendur fyrir sér en engin átök blossuðu upp.

Bandaríkin, Frakkland og Bretland segja að Rússar eigi enga heimtingu á neinum öryggissvæðum samkvæmt vopnahlésskilmálum. Rússar segja að svo sé samkvæmt vopnahlésskilmálum frá tíunda áratugnum, eftir átök í Suður-Ossetíu og Abkasíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert