71 fórst í flugslysi í Kírgistan

Boeing-737 farþegavél brotlenti í dag skömmu eftir flugtak í Bishkek, höfuðborg Kírgistans. Að sögn Interfax fréttastofunnar í Rússlandi voru að minnsta kosti 83 í flugvélinni. Heilbrigðisráðuneyti landsins segir, að 71 hafi látið lífið og 15 hafi komist af. Þeir voru allir fluttir á sjúkrahús. 

Talsmaður ráðuneytisins hafði áður sagt, að 87 hefðu látið lífið en sagði síðan að nýjar upplýsingar hefðu borist.

Ígor Tsjúdinov, forsætisráðherra, sagði að 15 útlendingar hefðu verið í vélinni, þar á meðal Íranar, Kínverjar og Kanandamenn. 

Tölum um farþegafjölda og staðsetningu hefur ekki borið saman. Interfax hafði eftir ráðherra í Kírgistan að 123 hafi verið um borð í vélinni þegar hún fórst. Fréttastofan RIA-Novosti hefur eftir ónefndum embættismanni í flugþjónustu landsins að um borð hafi verið 120 hið minnsta og að 25 hafi lifað af. Níu hafi verið fluttir á sjúkrahús.

Flugvélin, sem er af gerðinni Boeing 737, var á leið til Írans. Tíu mínútum eftir að flugvélin lagði af stað tilkynnti áhöfnin að hún væri að snúa við vegna bilunar í tæknibúnaði.

Maldomusa Kongatijev, innanríkisráðherra Kírgistans, sagði AP fréttastofunni, að flugvélin hefði brotlent um 10 km frá flugvellinum. Fréttir herma að bandaríska herstöðin í landinu hafi sent sjúkrabifreiðar og slökkvibúnað á svæðið eftir beiðni yfirvalda í Kírgistan.

Interfax segir, að flugvélin sé í eigu flugfélagsins Itek Air. Það er eitt þeirra flugfélaga, sem bannað er að fljúga til landa Evrópusambandsins vegna þess að öryggismál eru ekki í nógu góðu lagi hjá félaginu.

Kírgistan er fátækt land vestan Kína. Það var hluti af Sovétríkjunum meðan þau voru og hétu. Nú hafa Bandaríkjamenn herstöð í landinu skammt frá höfuðborginni Bishkek og nota hana til að styðja við aðgerðir í Afganistan. Um 1 milljón manna býr í Bishkek. Flugvöllurinn er um 40 km frá miðborginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert