Heilbrigðisyfirvöld í Kanada sögðu í gær að búið væri að tengja lífshættulega bakteríusýkingu sem leiddi til dauða fjögurra við kjöt sem var afturkallað af Maple Leaf Foods.
Búið er að staðfesta tuttugu og eitt tilvik alvarlegrar listeríusýkingar. Sýkingin sem kom upp er sérlega hættuleg eldra fólki, nýfæddum börnum, ófrískum konum og fólki með langvinna sjúkdóma. Meðal einkenna eru höfuðverkur, hiti, stífleiki, ógleði, magaverkur og niðurgangur.
Af þeim þremur kjötvörum sem voru endurkallaðir fannst listería í tveimur. Í þriðju vörutegundinni fundust bakteríur sem líktust listeríu en voru örlítið öðruvísi. Rannsókn á listeríufaraldrinum er þó ekki lokið.
Búið er að loka Maple Leaf Foods verksmiðjunni í Toronto meðan hún er hreinsuð algerlega.
Kjötvörurnar voru fjarlægðar úr búðum á fimmtudag. Það hefur hins vegar verið erfiðleikum bundið að komast að því hvar er hægt að finna vörur sem búið var að kaupa.
Eftir er að staðfesta þrjátíu tilvik í viðbót þar sem grunur leikur á að um listeríusmit sé að ræða og búist er við að eftir sé að tilkynna um fleiri þar sem þrjár vikur líða yfirleitt áður en listeríusmit kemur í ljós.
Forstjóri fyrirtækisins hefur lýst yfir djúpri samúð vegna dauðsfallanna.