Obama leiðir naumlega

Forsetaefni Demókrataflokksins, Barack Obama, mælist nú aðeins með örlítið meira fylgi en keppinautur hans, John McCain, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Hún var gerð áður en Obama kynnti varaforsetaefni sitt. Efnahagsmál eru ofarlega í huga svarenda.

Fylgi hans mælist einungis fjórum prósentustigum hærra og er því nánast innan skekkjumarka en þau eru þrjú prósent. Það var Washington Post og ABC News sem stóðu fyrir könnunni sem kynnt var í morgun.

Meðal þeirra sem líklegastir eru til þess að kjósa munu 49% styðja Obama og 45% McCain. Könnunin var gerð áður en Obama kynnti Joe Biden sem varaforsetaefni sitt.

Niðurstöður sýna að Obama hefur enn forskot í efnahagsmálum og helmingi fleiri sáu hann sem bjartsýnni frambjóðanda.

Þær sýna hins vegar einnig að helmingi fleirum finnst McCain búa yfir meiri þekkingu á alþjóðamálum og að hann myndi vera betri í hlutverki höfuðs heraflans.

Sömuleiðis kemur í ljós að ákveðin viðhorfsbreyting hefur átt sér stað meðal kjósenda og er efnahagurinn og atvinnumál nú efst á baugi hjá fjörutíu prósent kjósenda, samkvæmt könnuninni.

Stríðið í Írak sem var aðalmálið í kosningunum 2006 er einungis efst í huga fjórtán prósent þeirra sem svöruðu.

Fimmtíu og tvö prósent svarenda sögðu að Bandaríkjunum væri að verða vel ágengt í Írak, nokkuð sem kemur sér vel fyrir frambjóðenda Repúblikana.

Yfirlýsingar Obama þess efnis að kjör McCain myndi þýða þriðja kjörtímabil George W. Bush, Bandaríkjaforseta, situr hins vegar eftir í fólki.

Nærri sex af hverjum tíu svöruðu því til að ef McCain yrði forseti myndi hann halda áfram stefnu Bush.

Um þriðjungur svarenda studdi Bush í embætti og nærri helmingur svarenda hafði neikvætt viðhorf til Repúblikanaflokksins.

Rúmlega ellefu hundruð manns tóku þátt í könnunn.

McCain ásamt konu sinni Cindy.
McCain ásamt konu sinni Cindy. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert