Thatcher þjáist af elliglöpum

Margaret Thatcher árið 2005.
Margaret Thatcher árið 2005. Reuters

Dóttir Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, segir í nýrri bók að móðir hennar þjáist af elliglöpum og minnisleysi. Segir dóttirin, að þetta hafi byrjað að gera vart við sig fyrir átta árum þegar Thatcher var 74 ára.

Blaðið Mail on Sunday birtir í dag kafla úr bók Carol Thatcher þar sem hún segist fyrst hafa tekið eftir því að móður hennar var farið að förlast þegar þær snæddu saman hádegisverð einu sinni sem oftar árið 2000. 

Carol segir að móðir hennar hafi áður verið stálminnug, raunar með minni eins og netsíða þar sem öllum upplýsingum er safnað saman, en þegar þarna var komið fór hún að spyrja sömu spurninganna aftur og aftur.  

„Ég datt næstum af stólnum. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá hana í vandræðum með að finna réttu orðin. Hún var á 75. aldursári en mér fannst hún alltaf vera aldurslaus."

Thatcher var forsætisráðherra á árunum 1979 til 1990. Árið 2002 fékk hún nokkrum sinnum minni háttar heilablóðfall og læknar ráðlögðu henni þá að hætta að flytja ræður opinberlega. Vinir hennar hafa sagt, að heilablóðföllin hafi haft áhrif á skammtímaminni hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert