10 ára fangelsi fyrir að smita konur af HIV

Dómstóll í Finnlandi dæmdi í dag finnskan karlmann í 10 ára fangelsi fyrir að smita fimm konur með HIV veirunni sem veldur alnæmi. Þá hafði maðurinn kynmök við 14 aðrar konur án þess að nota verjur, þótt hann vissi að hann væri HIV smitaður.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að Aki Hakkarainen, sem er 25 ára að aldri, væri sekur um alvarlegar líkamsárásir á fimm konur og tilraun til alvarlegrar líkamsárásar á 14 konur þar sem hann sagði þeim ekki frá því fyrirfram að hann væri smitaður af HIV.

Hakkarainen var dæmdur til að greiða konunum fimm, sem hann smitaði, 300 þúsund evrur samtals, jafnvirði 36 milljóna króna.

Hakkarainen smitaðist af HIV veirunni árið 1999 þegar hann ferðaðist til Taílands. Afbrotin hófust skömmu síðar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka