Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður, hvatti í dag bandaríska demókrata til að stilla saman strengi sína og fylkja sér á bak við Barack Obama, væntanlegt forsetaefni flokksins. Flokksþing Demókrataflokksins verður sett í kvöld í Denver og munu bæði Hillary og Bill, eiginmaður hennar, ávarpa þingið.
„Það þarf enginn að velkjast í vafa um að við erum samstíga," sagði Clinton þegar hún ávarpaði þingfulltrúa frá New York. Hávær orðrómur hefur verið um að samkomulagið milli hennar og Obama sé ekki upp á það besta. Þá benda skoðanakannanir til þess, að margir þeir, sem kusu Clonton í forkosningum demókrata, séu lítið hrifnir af Obama.
Fréttavefurinn Politico.com sagði frá því í gær, að vantraust og gremja ríkti í hópum stuðningsmanna Clinton og Obama í garð hvor annars. Sagði vefurinn að Bill Clinton hefði reiðst þegar stuðningsmenn Obama reyndu að fá því framgengt, að ræða forsetans fyrrverandi á miðvikudag fjalli aðeins um þjóðaröryggismál.
Helstu aðstoðarmenn Clinton og Obama sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem þessum fréttum var vísað á bug. Segir þar að bæði Bill og Hillary styðji Obama heilshugar.
Hillary hefur lýst því yfir, að kjörmenn hennar á flokksþinginu megi greiða atkvæði eftir vild þegar kosning fer fram um forsetaefni flokksins en sjálf ætli hún að greiða Obama atkvæði sitt.
Að sögn AP fréttastofunnar er nú unnið að samkomulagi um hvernig atkvæðagreiðslan eigi að fara fram. Er gert ráð fyrir, að Hillary muni fá töluvert af atkvæðum en þegar atkvæðagreiðslan verði komin eitthvað á veg muni Hillary taka af skarið og leggja til að Obama verði tilnefndur samhljóða.