Hætti við sjálfsmorðsárás

Unglingsstúlka í vesti sem búið var að festa í sprengiefni gaf sjálfa sig fram við lögreglu í borginni Baquba í Írak í dag. Ættingjar stúlkunnar þvinguðu hana til verknaðarins.

Nafn stúlkunnar er Rania og er hún fædd 1993.

Æ fleiri konur hafa tekið þátt í sjálfsmorðsárásum í Írak. Talan hefur þrefaldast í ár, úr átta 2007 í 29 á þessu ári, segja bandarískar heimildir.

Lögreglan í Baqouba segir að stúlkan hafi sagt þeim að kvenættingjar eiginmanns hennar hafi sett á hana vestið. Hún giftist fyrir fimm mánuðum síðan. Ónafngreindur lögreglumaður sagði að ættingjar í fjölskyldu stúlkunnar tengdust al-Qaida í Írak.


Blaðamenn voru viðstaddir yfirheyrslur yfir stúlkunni. Í þeim segir hún að kvenættingar mannsins hafi fest á hana sprengiefnið og vestið og að maðurinn sinn hafi ekki vitað af því. Hún hafi ekki viljað framkvæma verknaðinn.

Henni voru sýndar hvellhetturnar og sprengibúnaður sem á voru tveir hnappar. Ef ekkert gerðist þegar þrýst var á þann fyrri átti hún að þrýsta á hinn hnappinn.

Móðir Raníu var einnig yfirheyrð og sagði hún lögreglu að hún hefði ekki vitað um ráðabruggið. Hún bætti því við að eiginmaðurinn væri horfinn.

Lögreglumaður sagði að stúlkan hefði farið með lögregluna í íbúðina þar sem vestið var fest á hana og að þar hefðu þeir fundið annað sprengivesti í annars tómri íbúð.

Yfirmenn í bandaríska hernum eru þeirrar skoðunar að al-Qaida í Írak sé í auknum mæli að fá til liðs við sig konur sem eru yfirkomnar af harmi yfir missi eiginmanns, barna og annarra ættingja, sem látist hafa með voveiflegum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert