Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn, Edward Kennedy, sem berst við krabbamein í heila, mun koma fram á flokksþingi demókrata sem hefst í dag í Denver. Til stendur að sýnt verði átta mínútna langt myndband með honum í kvöld en bandarískir fjölmiðlar greina frá því í dag að hann muni ekki láta þar við sitja heldur mæta á flokksþingið í eigin persónu.
Edward Kennedy, 76 ára, gekkst undir skurðaðgerð í byrjun júní þar sem illkynja æxli var fjarlægt úr heila hans.
Boston Globe hefur eftir trúnaðarvini Kennedy fjölskyldunnar að Edward muni örugglega mæta á flokksþingið líkt og aðrir meðlimir Kennedy-fjölskyldunnar.
Washington Post hefur eftir talsmanni fjölskyldunnar, Stephanie Cutter, að öldungadeildarþingmaðurinn væri staðráðinn í að mæta. Hann er auðmjúkur vegna alls stuðningsins sem honum hefur verið sýndur og myndi ekki missa af því fyrir nokkurn mun að mæta á flokksþingið, segir Cutter í samtali við WP.