Kínversk yfirvöld vísuðu í morgun breskri konu og þýskum manni úr landi vegna þátttöku þeirra í mótmælum á ólympíuleikunum en skammt er síðan átta Bandaríkjamönnum var vísað úr landi af sömu ástæðu.
Mandi McKeown og Florien Norbu Gyanatshang voru sett um borð í flugvél á leið til Frankfurt. Forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown sem var viðstaddur lokahátíð leikanna hafði hvatt kínversk yfirvöld til að sleppa McKeown úr haldi.
Fólkið sem vísað var úr landi hafði tekið þátt í mótmælum fyrir utan aðalleikvang ólympíuleikanna og hengt upp borða sem á stóð Frelsið Tíbet.
Bandaríkjamennirnir sem sendir voru til Washington í gær lýstu því yfir að þeir hörmuðu að ólympíuleikarnir skyldu ekki hafa orðið til þess að opna Kína meira eða verða til aukins umburðarlyndis í þjóðfélaginu.
Utanríkisráðuneyti Kína sagði að mótmælendurnir hefðu tekið þátt í aðgerðum sem stuðla að frelsi Tíbets og að það bryti í bága við kínversk lög.