Sendinefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna í Afganistan segist hafa sannanir fyrir því að 90 saklausir borgarar, þar af 60 börn, hafi fallið í loftárásum Bandaríkjahers í landinu í síðustu viku.
Mannréttindateymi aðstoðarsendinefndar SÞ í Afganistan (UNAMA) heimsótti Shindand-hverfið í Herat-héraði landsins eftir að tugir féllu í loftárásum á föstudag.
„Rannsóknir UNAMA leiddu í ljós sannfærandi sönnunargögn, sem byggja á framburði sjónarvotta og annarra, að 90 óbreyttir borgarar létust, þar á meðal 60 börn, og 15 konur og 15 karlar,“ Kai Eide, fulltrúi SÞ, í yfirlýsingu.
Hamid Karzai, forseti Afganistans, lét einnig rannsaka loftárásina og niðurstöður rannsóknarnefndarinnar sem hann skipaði komst að því að fleiri hafi látið lífið í árásunum.
Aldrei hafa fleiri óbreyttir borgarar látist í hernaðaraðgerð frá því alþjóðasveitir komu til landsins árið 2001 til að koma talibanastjórninni frá völdum.
Her bandamanna sagði í fyrstu að aðeins 30 talibanar hefðu fallið. Þeir viðurkenndu hins vegar í dag að fimm saklausir borgarar, tvær konur og þrjú börn, hefðu verið meðal þeirra sem létust.