Forsætisráðherra Kanada, Stephen Harper, sagði í dag að hugsanlegt væri að hann boðaði fyrr til kosninga en ætlað var, áður en stjórnarandstaðan gæti steypt minnihlutastjórn hans af stóli. Bendir þetta til þess að það sé mat ráðherrans að meiri líkur séu á því að hann vinni kosningar fyrr frekar en seinna.
Til að gera þetta þarf Harper að fara einhvern veginn í kringum lög sem hann var sjálfur með í að semja og sem setja fastan kosningadag í október 2009.
„Landið verður að hafa starfhæfa stjórn á þessum tímum efnahagsóvissu og ef það er ekki þessi stjórn eða þetta þing þá mun almenningur fá tækifæri til þess að velja,” sagði Harper.
Þrjár hliðarkosningar eru ráðgerðar 8. september þar sem kosið verður í þrjú laus sæti á þinginu og eru stjórnarandstæðingar vongóðir um að vinna að minnsta kosti tvö þeirra. Það gæti styrkt stjórnarandstöðuna fyrir almennar kosningar.
Harper vill að almennar kosningar fari fram fyrir þennan tíma til að koma í veg fyrir aukinn styrk frjálslyndra. Hann sagði að hann væri að íhuga að boða til kosninga fyrr, sem þýðir að kosningar gætu orðið í þessari viku eða næstu.
Ef kosningarnar verða haldnar núna frestast kosningar þær sem áttu að fara fram 2009 um fjögur ár. Þá myndi Harper brjóta lög sem hann sjálfur tók þátt í að semja þar sem ákveðinn kosningadagur er valinn en lögunum var ætlað að koma í veg fyrir að ráðandi flokkur gæti ákveðið kosningadag eftir eigin hentugleika.
Harper vill meina að stjórnarandstaðan vilji hvort eð er stuðla að kosningum á næstunni.
Ríkisstjórn Harpers gæti fallið þegar þing kemur saman að nýju þann 15. september ef stjórnarandstöðuflokkarnir þrír sem saman mynda meirihluta á þingi koma sér saman um vantrauststillögu á stjórnina.
Íhaldsmenn Harpers ráða nú yfir 127 af 308 sætum á þinginu. Frjálslyndir hafa 95, Bloc Quebecois 48 og Nýir Demókratar 30. Óháðir ráða fjórum og fjögur eru tóm.
Íhaldsmenn tóku við af frjálslyndum árið 2006 eftir að þeir síðarnefndu höfðu setið nærri 13 ár á valdstóli en sem minnihlutastjórn er hald íhaldsmanna á stjórnartaumunum veikt og Harper verður að reiða sig á stuðning stjórnarandstæðinga til að koma lögum í gegn.