Frambjóðandi X og frambjóðandi Y

Margir hafa á tilfinningunni, að Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sé langt frá því heilshugar í stuðningi við Barack Obama, forsetaefni Demókrataflokksins. Ræða, sem Clinton flutti í Denver í gærkvöldi á fundi erlendra gesta, dró ekki úr þeirri tilfinningu.

„Setjum svo að það séu tveir frambjóðendur, frambjóðandi X og frambjóðandi Y. Frambjóðandi X er sammála þér í öllum málum en þú telur að hann muni ekki ná neinu fram. Frambjóðandi Y er ósammála þér í helmingi mála en þú hefur á tilfinningunni að hann muni ná árangri í hinum helmingnum. Hvorn mynduð þið kjósa? Ég spái því að spurningar á borð við þessa muni koma upp en þetta á alls ekki við um það, sem nú er í gangi," sagði Clinton.

Reutersfréttastofan segir, að stuðningsmenn Obamas muni ekki taka þessum ummælum forsetans fagnandi þrátt fyrir síðustu orð Clintons, því auðvelt sé að lesa út úr þeim, að flokkurinn hafi gert mistök með því að velja Obama sem forsetaefni frekar en Hillary Clinton.

Bill Clinton mun flytja ræðu á flokksþingi Demókrataflokksins í Denver í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert