Bill Clinton styður Obama

Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, lýsti yfir stuðningi á Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, á flokksþingi Demókrataflokksins í Denver Colorado í gærkvöldi. Þá kom Obama óvænt á þingið og steig upp á sviðmeð Joe Biden, varaforsetaefni sínu, við mikinn fögnuð viðstaddra.

Barack Obama og varaforsetaefni hans Joe Biden voru í gærkvöldi formlega útnefndir frambjóðendur flokksins í forsetakosningum sem haldnar vera í nóvember.

Clinton þótti takast vel upp í ræðu sinni og sagði David Gergen, stjórnmálaskýrandi CNN, að þetta hefði verið áhrifamesta og mikilvægasta ræða, sem Clinton hefði flutt frá því hann yfirgaf Hvíta húsið í janúar 2001. 

Clinton tók m.a. dæmi af sjálfum sér þegar hann fjallaði um fullyrðingar þess efnis, að Obama hefði ekki næga reynslu til að bera. „Við höfðum saman sigur í kosningabaráttu þar sem repúblikanar sögðu, að ég væri of ungur og óreyndur til að verða forseti Bandaríkjanna," sagði Clinton við flokksfélaga sína.

„Hljómar þetta kunnuglega? Það virkaði ekki árið 1992 vegna þess að við höfðum söguna okkar megin. Og það mun ekki virka 2008 vegna þess að Barack Obama hefur söguna sín megin," sagði Clinton. 

Hann lagði, líkt og Hillary eiginkona hans hefur gert á flokksþinginu, að demókratar verði að leggja ágreining sinn til hliðar og sameinast um Obama. Sagði hann að of mikið væri í húfi þar sem ameríski draumurinn væri á undanhaldi heima fyrir og forusta Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi hefði veikst.

„Allt sem ég hef lært á átta ára forsetatíma mínum og í störfum mínum síðan í Bandaríkjunum og um allan heim hefur sannfært mig um að það er hægt að treysta Barack Obama til þessa starfa," sagði Clinton. „Hann hefur til að bera merkilega hæfni til að fylla okkur nýjum vonum og krafti til að vinna góð verk."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert