Leiðtogar Evrópusambandsins íhuga nú að beita Rússa refsiaðgerðum vegna stríðsátakanna í Georgíu. Þetta sagði Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands.
Kouchner útskýrði þetta ekkert frekari en bætti við að málið verði leyst við samningaborðið, segir á vef BBC.
Vesturveldin hafa fordæmt aðgerðir Rússa í Georgíu en einnig þá ákvörðun rússneskra stjórnvalda að viðurkenna sjálfstæði Georgíu-héraðanna Suður-Ossetíu og Abkasíu.
Dímítrí Medvedev Rússlandsforseti segist hins vegar njóta stuðnings Kína og fjögurra Mið-Asíu ríkja.
Medvedev sagði á ráðstefnu Samvinnustofnunar Sjanghæ að samstaða ríkjanna muni hafi áhrif á alþjóðavísu.
„Ég vona að þetta muni senda þau skilaboð til þeirra sem reyna að snúa svörtu í hvítt og réttlæta þessar aðgerðir,“ sagði forsetinn.