Aðstoðarutanríkisráðherra Noregs segir nú, að Norðmenn séu ekki reiðubúnir til viðræðna við Osama bin Laden eða aðra fulltrúa al-Qaeda. Utanríkisráðuneytið norska sendi í dag út tilkynningu þar sem sagði að ummæli aðstoðarráðherrans hafi verið mistúlkuð í gær á þá lund, að Norðmenn væru tilbúnir til viðræðna við bin Laden.
Frá þessu greinir Aftenposten, en Dagsavisen hafði í gær eftir Raymond Johansen, aðstoðarutanríkisráðherra, að það væri „engin þörf á friðarviðræðum við vini sína heldur óvininn,“ en hann kvaðst um leið ekki fara í grafgötur með að bin Laden hefði engan áhuga á viðræðum.
En sú túlkun fréttastofunnar NTB á orðum sínum, að Norðmenn vilji ræða við bin Laden, gefi „ranga mynd af utanríkisstefnu Noregs.“