Pútín segir Bandaríkjamenn hafa „framleitt" átökin í Georgíu

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. Reuters

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sagði í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN, að hann grunaði að „einhver í Bandaríkjunum" hefði búið til deiluna í Georgíu, sem leiddi til hernaðarátaka milli Rússa og Georgíumanna. Markmiðið hefði verið að skapa bandarískum forsetaframbjóðanda forskot í kosningabaráttunni. Virðist Pútín eiga þar við John McCain, frambjóðanda repúblikana.

„Staðreyndin er, að það voru bandarískir ríkisborgarar á svæðinu og tóku þátt í átökunum. Menn ættu að viðurkenna, að slíkt er aðeins gert samkvæmt beinum skipunum frá leiðtogum þeirra," sagði Pútín. 

Hvíta húsið í Washington brást hart við þessum ummælum og sögðu þau úr lausu lofti gripin. 

Afar mikil spenna er nú í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna vegna átakanna í Georgíu. Rússar gerðu í dag tilraunir með langdrægar flaugar og Bandaríkjastjórn gaf til kynna, að hún íhugaði að segja upp samningi við Rússa um kjarnorkusamvinnu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert