Kanadíska innanlandsflugfélagið Jazz hefur ákveðið að fjarlægja öll björgunarvesti úr vélum sínum til að létta þær og spara þannig eldsneyti. Í staðinn er farþegum bent á að nota sætissessur sem flotholt. Fulltrúi félagsins segir að vélar þess fljúgi ekki yfir opið haf, og því sé þetta heimilt samkvæmt reglum samgönguráðuneytisins.
Samkvæmt reglugerð er flugfélögum heimilt að hafa flotholt í vélum í stað björgunarvesta ef vélarnar fara aldrei lengra en 50 sjómílur frá ströndinni.
Jazz er dótturfélag Air Canada. Vélar Jazz fara yfir Vötnin miklu og með austurströndinni frá Halifax til Boston og New York.
Björgunarvesti í flugvélum eru um hálft kíló hvert, sem þýðir að 50 sæta Dash-8 flugvél, sem er algengasta vél Jazz, léttist um 25 kíló ef þau eru fjarlægð.