Stjórnvöld í Georgíu hafa ákveðið að slíta öll stjórnmálatengsl við Rússa. Aðeins eru nokkrir dagar liðnir frá því rússnesk stjórnvöld viðurkenndu sjálfstæði Georgíu-héraðanna Suður-Ossetíu og Abkasíu.
Grigol Vashadze, aðstoðarutanríkisráðherra Georgíu, segir að ráðuneytið hafi fengið tilmæli að ofan og að búið sé að taka lokaákvörðun um málið.
Fyrr í þessum mánuði háðu Rússar og Georgíumenn stutt stríð eftir að stjórnvöld í Georgíu sendu herlið inn í Suður-Ossetíu til að berjast við aðskilnaðarsinna.