Hver er Sarah Palin?

00:00
00:00

Óhætt er að segja að John McCain hafi komið með allóvænt út­spil þegar hann lét ber­ast út að að Sarah Pal­in, rík­is­stjóri í Alaska, yrði vara­for­seta­efni sitt í for­seta­kosn­ing­un­um í nóv­em­ber. Ýmsir hafa vafa­laust spurt í forundr­an: Hver er Sarah Pal­in? og víst er að þeir sem reyndu fyrst eft­ir að frétt­in barst út að heim­sækja op­in­bera vefsíðu henn­ar urðu lít­ils vís­ari - hún hafði ein­fald­lega lagst á hliðina, slík hef­ur ásókn­in verið.

Engu að síður má sjá á net­inu að ein­hverj­ir hafa orðað þann mögu­leika að sniðugt gæti verið fyr­ir McCain að leita til þess­ar­ar stór­huggu­legu og bráðrösku fimm barna móður sem stýr­ir þessu nyrsta ríki Banda­ríkj­anna og er yf­ir­leitt ekki mikið til umræðu á þeim slóðum þar sem menn véla um völd­in.

Þannig get­ur stjórn­mála­skýr­and­inn, Jack Kelly, strax 4. júní sl, þess á net­síðunni Real Cle­ar Politics að þegar leitað sé að vara­for­seta­efni eigi þeir sem at­hygl­in bein­ist að fyr­ir ýmsa mann­kosti, sér líka ýms­ar dekkri hliðar sem geti verið tvíbent­ar þegar út í kosn­inga­bar­átt­una er komið. Þó sé til eitt mögu­legt vara­for­seta­efni sem eig­in­lega sé ekk­ert hægt að setja út á. Og þeir hægri­menn sem til henn­ar þekkja hafi orðið harla glaðir þegar frétt­ist að einn helsti aðstoðarmaður McCain,  Arth­ur Cul­va­hou­se, hafi ein­mitt gert sér ferð til Alaska ný­verið, því að þeir gangi út frá því að hann hafi ein­göngu verið þar til að ræða vara­for­seta­mál við rík­is­stjór­ann, Söruh Pal­in.

Sarah Louise Heath Pal­in er 44 ára að aldri, yngsti rík­is­stjór­inn í til­tölu­lega skammri sögu rík­is­ins og jafn­framt fyrsta kon­an til að gegna því embætti. Hún er jafn­framt vin­sæl­asti rík­is­stjór­inn í Banda­ríkj­un­um, þar sem  nærri 90% kjós­enda lýsa yfir ánægju með hana..

Bak­grunn­ur Pal­in er um margt ein­stak­ur. Hún flutt­ist korn­ung með for­eldr­um sín­um til Wasilla í Alaska þar sem faðir henn­ar bæði kenndi og þjálfaði í frjáls­um íþrótt­um. Fjöl­skyld­an er mikið íþrótta- og úti­vistar­fólk og sag­an seg­ir að feðgin­in hafi stund­um vaknað um miðja nótt til að fara á elgsveiðar áður en skóla­dag­ur­inn byrjaði og að þau hafi hlaupið reglu­lega 5 og 10 km. hlaup.

Til þess er tekið að þegar hún leiddi körfu­boltalið Wasilla mennta­skól­ans í keppni slíkra skóla í rík­inu hafi fé­lag­ar henn­ar kallað hana Söruh „barrakúða“ eft­ir vatna­fiskn­um grimma vegna gíf­ur­legr­ar keppn­is­hörku.

Skömmu seinna var hún kos­in Ung­frú Wasilla í feg­urðarsam­keppni heima fyr­ir, jafn­framt vin­sæl­asta stúlk­an og varð síðan önn­ur í úr­slit­un­um um Ung­frú Alaska. Það dugði henni til að hreppa náms­dvöl í há­skól­an­um í Ida­ho, fæðing­ar­ríki sínu. Þar lauk hún prófi í blaðamennsku með stjórn­mála­fræði sem aukafag en starfaði síðan um tíma sem íþróttaf­réttamaður á sjón­varps­stöð í Anchorage áður en hún sneri sér að stjórn­mál­um. Hún byrjaði í bæj­ar­stjórn­ar­mál­um heima fyr­ir í Wasilla en fór síðan að láta mikið til sín taka inn­an Re­públi­kana­flokks­ins í Alaska. Hún gerðist ákaf­ur and­stæðing­ur hvers kyns spill­ing­ar og lausa­taka í flokks­starf­inu og á end­an­um skilaði það henni í rík­is­stjóra­stól­inn fyr­ir tveim­ur árum. Þar nýt­ur hún meiri hylli en nokk­ur ann­ar rík­is­stjóri í Banda­ríkj­un­um, eins og áður er nefnt.

Hún hef­ur sitt­hvað annað til að bera sem mun höfða til þeirra hægri sinnuðustu í flokkn­um. Í Alaska hef­ur hún reynst aðhalds­söm í rík­is­fjár­mál­um, hún er ævi­fé­lagi í sam­tök­um banda­rískra byssu­eig­enda enda mik­il veiðikona, mjög trúuð sem hún rækt­ar með því að sækja kirkju reglu­lega og því harður and­stæðing­ur fóst­ur­eyðinga. Þá var elsti son­ur henn­ar, Ted sem er 18 ára, ný­verið að skrá sig í her­inn, og ekki fer það síður vel í hægra liðið sem aldrei hef­ur treyst McCain full­kom­lega.

Sarah Pal­in hef­ur að minnsta kosti hitt einn Íslend­ing svo vitað sé. Það er Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, for­seti Íslands. Þau hitt­ust þegar Ólaf­ur tók við um­hverf­is­verðlaun­um Norður­slóða sl. haust og hélt þá ein­mitt ræðu á fjöl­mennri alþjóðlegri ráðstefnu ásamt Söruh Pal­in rík­is­stjóra Alaska, jafn­framt sem hann átti fund með ýms­um áhrifa­mönn­um Ala­ska­rík­is um jarðhita­nýt­ingu. Ekki er ólík­legt að Pal­in hafi verið þar í hópi, þótt þess sé ekki getið.

McCain kynnti Palin formlega til leiks á kosningafundi í Ohio …
McCain kynnti Pal­in form­lega til leiks á kosn­inga­fundi í Ohio í dag. Reu­ters
Sarah Palin.
Sarah Pal­in. AP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert