Bretar standa frammi fyrir verstu efnahagsaðstæðum sem orðið hafa í sextíu ár, og kreppan núna verður verri og lengri en búist hefur verið við, sagði Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í dag. Kveðst hann telja fulla ástæðu til að „segja fólki sannleikann.“
Darling segir ennfremur í viðtali við The Guardian að það verði erfitt fyrir Verkamannaflokkinn að sigra í næstu kosningum, vegna þess að stjórnvöldum hefði algjörlega mistekist að koma þeim boðum til kjósenda að þau hefðu skilning á erfiðleikum þeirra, hækkandi framfærslukostnaði og minnkandi atvinnuöryggi.
Bretar, líkt og aðrar þjóðir heims, stæðu frammi fyrir mjög sérstökum aðstæðum þar sem saman færi kreppan á fjármálamarkaðinum og hækkandi verð á bæði olíu og matvælum.