Bretar kvarta sáran yfir sumrinu, sem nú er brátt á enda. Hefur blaðið Daily Mirror eftir veðurfræðingum, að skotvindar í háloftunum hafi verið of sunnarlega og beint til Bretlands veðri, sem í raun hefði átt að vera á Íslandi.
„Þetta stöðvar háþrýstisvæðin, sem venjulega færa okkur gott veður," hefur blaðið eftir Helen Chivers hjá bresku veðurstofunni.
Það hefur raunar verið glaðasólskin og yfir 25 stiga hiti í höfuðborginni Lundúnum um helgina en annarstaðar var hálfskýjað og spáin er ekki góð fyrir vikuna, sem er að hefjast.
Mirror segir, að útlit sé fyrir að sumarið nú sé eitt af fimm votustu sumrum frá árinu 1914 þegar fyrst var byrjað að skrá upplýsingar um úrkomu. Það votasta var árið 1956 þegar úrkoma frá 1. júní til 31. ágúst mældist 358,4 millimetrar. Í ár hefur úrskoma á sömu mánuðum mælst nærri 318 millimetrar, sem er 40% yfir meðaltali.
Þá voru aðeins 96,3 sólskinsstundir í ágúst, 40% undir meðallagi og hefur sólarleysi ekki verið meira frá árinu 1929.