Bush fer líklega ekki á landsþing repúblíkana

McCain gengur ásamt konu sinni, Cindy, um borð í flugvél …
McCain gengur ásamt konu sinni, Cindy, um borð í flugvél sem flytur þau til Mississippi í dag. Reuters

Ólíklegt er að George W. Bush Bandaríkjaforseti mæti til setningar landsþings Repúblíkanaflokksins á morgun vegna yfirvofandi hættu af völdum fellibylsins Gústavs, að því er talsmaður Hvíta hússins sagði í morgun. Svo kann reyndar að fara að þinginu verði frestað vegna veðursins.

Landsþingið verður haldið í St.Paul í Minnesota. Hugsanlegt er að Bush haldi til Louisiana í dag, þar sem búist er við að Gústav komi að landi á næsta sólarhring. Óttast er að hann verði enn öflugri en Katarina, sem lagði New Orleans að mestu í rúst fyrir þrem árum.

John McCain, sem taka mun formlega við útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins á þinginu, sagði í gær að það væri vart viðeigandi að halda þingið með pompi og prakt á sama tíma og náttúruhamfarir geisuðu.

Hann hélt í dag ásamt varaforsetaefni sínu, Söru Palin, til Mexíkóflóastrandarinnar, til að kynna sér viðbúnaðinn vegna veðursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert