Flugmenn lággjaldafélagsins Ryanair hafa brugðist ókvæða við tilmælum félagsins um að þeir takmarki magn aukaeldsneytis sem þeir taki á vélar félagsins í öryggisskyni. Segja þeir þetta vera „geggjun“ og stofna öryggi farþega í hættu.
Þessi tilmæli komu fram á innanhússminnisblaði hjá Ryanair, sem The Sunday Times komst yfir, og greinir frá þessu í dag.
Bresk flugmálayfirvöld hafa greint frá því, að fjöldi flugatvika þar sem neyðarástand hafi skapast vegna eldsneytisskorts hafi tvöfaldast á fimm árum. Í fyrra þurftu flugvélar 27 sinnum að lenda tafarlaust vegna lítils eldsneytis, en slík tilvik árið áður voru ellefu.
Samkvæmt reglum þurfa flugvélar að hafa aukabirgðir af eldsneyti umfram það sem þarf til að ná á áfangastað, nóg til að geta farið til varaflugvallar. Þar að auki ber flugstjórum að reikna með töfum vegna mótvinds, óveðurs og breytinga á flugleið, og bæta við eldsneyti í samræmi við það.
Flugmenn Ryanair mega samkvæmt minnisblaðinu ekki taka eldsneyti umfram tiltekið hámark, 300 kg, nema „í undantekningartilvikum.“ Þeir sem ekki útskýra hvers vegna þeir taki meira fá aðvörun frá félaginu.
Þetta segja flugmennirnir að sé óviðunandi þrýstingur sem ógni öryggi. Hafa flugmennirnir brugðist við þessu með nafnlausum skrifum á vef samtaka flugmanna félagsins.
Þar segir m.a.: „Það er geggjun að þrýsta á flugmenn að fljúga með lágmarkseldsneyti og hætta á eldsneytisskort og eiga jafnvel ekki nein hús að venda vegna þess að eini varavöllurinn sem hægt er að ná til er troðfullur af öðrum vélum.“