Kona Fosters skotin í höfuðið

Lögreglan í Bretlandi hefur greint frá því að annað líkanna sem fannst í brunarústum heimilis viðskiptajöfursins Christophers Fosters í Shropshire sé af eiginkonu hans, Jill. Hún hafi verið skotin í höfuðið.

Lögreglumenn segja að skotvopnið sem notað var til að myrða Jill hafi verið í eigu Christophers, að því er fréttavefur Sky-sjónvarpsins greinir frá. 

Hitt líkið sem fannst í rústum sveitaseturs Fosterfjölskyldunnar í síðustu viku er af fullorðnum manni, en ekki hafa enn verið borin kennsl á það.

 Fosterhjónin og fimmtán ára dóttir þeirra, Kirstie, hafa ekki sést síðan húsið brann, aðfaranótt sl. þriðjudags. Ljóst er að kveikt var í húsinu.

Miklar vangaveltur hafa verið í breskum fjölmiðlum um hvað hafi gerst og óstaðfestar fréttir hafa verið um að skothylki og blóðblettir hafi fundist á lóð hússins.

Einnig hafi hestar og hundar fjölskyldunnar verið skotnir áður en kveikt var í hesthúsinu. Hestaflutningavagni hafði verið komið fyrir í hliði við landareignina og tafði það för slökkviliðs.

Foster er sagður vera vellauðugur, en hann auðgaðist á að þróa eingangrunarefni fyrir olíuborpalla. Hann stýrði fyrirtæki, Ulva Limited, sem framleiddi slíkt efni. Það fyrirtæki varð gjaldþrota á síðasta ári og skuldaði þá birgjum háar fjárhæðir. 

Dómari, sem stýrir gjaldþrotameðferðinni, komst að þeirri niðurstöðu, að Foster hefði áður flutt eignir fyrirtækisins yfir til nýs fyrirtækis, sem nefnt er Ulva International.

Fosterfjölskyldan.
Fosterfjölskyldan. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert