Lögregla í Rússlandi skaut í dag til bana eiganda vefjar sem gagnrýnt hefur yfirvöld harðlega, að því er samstarfsmenn hans greindu frá. Þetta gerðist í Ingúsetíu, sem er næsta hérað við Tétsníu, og kann að auka spennuna í héraðinu, þar sem fjölmargar árásir hafa að undanförnu verið gerðar á lögreglu og embættismenn.
Eigandi og ritstjóri vefjarins Ingushetiya.ru, Magomed Jevlojev, var handtekinn í dag er hann kom með flugvél til Ingúsetíu, sagði aðstoðarritstjóri vefjarins.
Lögreglan hafi farið með Jevlojev á brott í bíl, en síðan skilið lík hans eftir á veginum með kúlu í höfðinu.
Talsmaður rússneskra stjórnvalda sagði að Jevlojev hefði verið fluttur til yfirheyrslu en hefði látið lífið á leiðinni. Hafin væri rannsókn á hvað gerst hefði.