Menntamálaráðherra Frakklands segir, að lykillinn að betri árangri sé aukin enskukunnátta. Verður framhaldsskólanemendum í landinu boðið upp á ítarleg enskunámskeið í vetrar- og sumarfríum. Ráðherrann segir að það sé „hamlandi“ að vera lélegur í ensku.
Í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina TF-1 í dag sagði ráðherrann, Xavier Darcos, að efnaðar fjölskyldur hafi kostað börn sín á námskeið erlendis, en „ég ætla að bjóða öllum upp á þau hér heima.“
Þessi ummæli ráðherrans eru talin vera til marks um aukið raunsæi Frakka, en franskir stjórnmálamenn hafa gjarnan reynt að auka áhrif frönskunnar og verjast enskum áhrifum. Jacques Chirac, fyrrverandi forseti, gekk á dyr á ESB-ráðstefnu 2006 þegar Frakki ávarpaði hana á ensku.