Yfirvöld í Pakistan hafa ákveðið að hefja rannsókn á því hvort eitthvað sé hæft í ásökunum um að fimm konur hafi verið myrtar eftir að þær óskuðu eftir því að velja sér eiginmann sjálfar. Mikil reiði er í Pakistan vegna morðanna en þær voru myrtar á hrottalegan hátt fyrir rúmum mánuði síðan, samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum.
Morðin komu til kasta þings landsins í dag þegar þingmenn kröfðust þess að glæpamennirnir yrðu dregnir til ábyrgðar. Í síðustu viku varði þingmaðurinn Israr Ullah Zehri, frá Baluchistan-héraði morðin og sagði þau byggja á aldagamalli hefð. Í kjölfarið braust út mikil reiði meðal annarra þingmanna og hæstiréttur Baluchistan ákvað að krefjast rannsóknar á morðunum.
Þrír hafa þegar verið handteknir vegna málsins, að sögn Asif Warraich, lögreglustjóra í Baluchistan. Eru þeir allir tengdir fórnarlömbunum og hafa játað á sig morðin.
Í sumum héruðum Pakistan þykir það smán ef konur eiga í sambandi, eða gifta sig án samþykkis karlmanna í fjölskyldunni og talið er að hundruð kvenna séu fórnarlömb sæmdarmorða í landinu á hverju ári.
Í síðasta mánuði neituðu þrjár unglingsstúlkur og tvær konur því í þorpinu Baba Kot í Jafferabad sýslu að ganga að eiga menn sem þeim var gert að giftast. Óskuðu þær eftir því að fá að stjórna því sjálfar hverjum þær giftust.
Mannréttindasamtök segja að þær hafi verið numdar á brott af sex vopnuðum mönnum og fluttar á afvikinn stað þar sem þær voru lamdar, skotnar og síðan grafnar lifandi. Segja mannréttindasamtök að rannsókn málsins hafi tafist vegna þess að meðlimir í valdamikilli fjölskyldu í héraðinu hafi blandast inn í morðin.