Breska lögreglan fann þriðja líkið í óðalssetrinu Osbaston House í Maesbrook í Shropshire í gær en húsið brann til kaldra kola á þriðjudaginn var. Kennsl hafa verið borin á eitt líkanna og segir lögreglan að um morðmál sé að ræða.
Eiginkona milljónamæringsins Christophers Foster, Jill sem var 49 ára mun hafa látist af völdum skotsárs á höfði fyrir brunann.
Samkvæmt fréttavef BBC hefur ekki verið staðfest hvort Christopher Foster, 50 ára eða dóttir hans Kirstie Foster, 15 ára séu meðal hinna látnu.
Lögreglan segir að kveikt hafi verið í óðalssetrinu um klukkan 5 á þriðjudagsmorgun og verið var að rannsaka riffil sem var í eigu Fosters sem hugsanlegt morðvopn.
Þrír hestar og fjórir hundar fundust dauðir á víð og dreif um húseignina og höfðu dýrin öll verið skotin fyrir brunann.