Gustav reyndist veikari

Þegar Gustav náði að landi í Suður-Louisiana var hann talsvert veikari en gert hafði verið ráð fyrir og vatn rétt gutlaði yfir flóðvarnagarða í kringum New Orleans.

Sjö dauðsföll eru þó rakin til óveðursins í Louisiana í gær, að sögn CNN. Þrír létu lífið þegar tré féllu á þá og fjórir sjúklingar þoldu ekki flutning frá sjúkrahúsi.  

Þetta var í fyrsta sinn sem reynir á flóðvarnagarðana sem enn er verið að byggja, þremur árum eftir að hörmungarnar áttu sér þar stað.

Stormurinn sem snerti land var flokkaður sem annars flokks fellibylur og var vindhraði 49 metrar á sekúndu og hafði í gærdag verið endurflokkaður sem hitabeltisstormur með 27 m/s vindhraða.

Bjartsýni byrjaði þegar að grípa um sig og fólk bjóst við því að lífið færi mjög bráðlega að fara aftur í venjulegt horf. Borgarstjórinn, Ray Nagin, varaði samt við því að fólk kæmi of snemma til baka en sagði líka að þetta yrðu dagar en ekki vikur.

Enn er bannað að koma til borgarinnar og að vera utandyra og 80.000 þeirra sem urðu eftir eru enn án rafmagns eftir að rafmagnslínur slitnuðu og 35 aflstöðvar hættu að virka.

Frárennsliskerfi borgarinnar hefur skemmst og spítalar ganga fyrir varaaflstöðvum og lágmarksmannafla. Drykkjarvatn hélt áfram að streyma til borgarinnar og pumpur sem halda henni í góðu horfi virka ennþá. Þessir tveir þættir voru ekki í lagi þegar Katrina fór yfir og hafði það mikil áhrif.

Farið verður vandlega yfir borgina í dag af matsfólki og síðan verður farið að koma með fólk til baka. Rútur bíða þess nú að byrja flutningana.

„Ég myndi ekki gera neitt öðruvísi,” sagði borgarstjórinn. „Nema hvað að í stað þess að kalla Gustav móður allra storma myndi ég kannski kalla hann tengdamömmu eða hina ljótu systur allra storma.”

Borgin er þó ekki án skemmda. Stíflugarður í suðurausturhluta Louisiana er mikið skemmdur og gæti látið undan. Þök flugu af heimilum, tré voru rifin upp með rótum og vegir fóru undir vatn. Þá sökk ferja og meira en milljón heimili voru án rafmagns. Það liggur heldur ekki ljóst fyrir hvaða skemmdir urðu hjá olíu- og gasfyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka