Vinnu í indversku bílasmiðjunum sem framleiða áttu Nano, er nefndur var ódýrasti bíll í heimi, hefur verið hætt vegna mikilla mótmæla íbúa í grenndinni. Framleiðandinn, Tata Motors, ákvað að reyna að finna annan stað fyrir verksmiðjuna í kjölfar heiftarlegra mótmælaaðgerða bænda í Vestur-Bengal, þar sem verksmiðjan er nú.
Aðgerðir bændanna hafa komið í veg fyrir starfrækslu verksmiðjunnar síðan á föstudaginn. Bændurnir vilja fá aftur landsvæðið sem fór undir verksmiðjuna, og segja það hafa verið tekið af sér með valdi.
Tata ætlar að kanna möguleika á að flytja framleiðsluna á Nano, sem á að kosta um 100.000 rúpíur (210.000 krónur), í einhverja af hinum sex verksmiðjunum sem fyrirtækið á á Indlandi.