Rússar harma ákvörðun Evrópusambandsins

Yfirvöld í Rússlandi harma þá ákvörðun leiðtoga Evrópusambandsins að slá samvinnu við Rússa á frest vegna Georgíudeilunnar. Þau lýsa hins vegar yfir létti yfir að ESB skyldi falla frá hugmyndum nokkurra aðildarríkja um að beita Rússa efnahagsþvingunum.

Rússnesk dagblöð hafa mörg hver lýst yfir sigri eftir að ákvörðun leiðtoganna lá fyrir í Brussel í gær, með vísun til þess að þeir hefðu ekki komið sér saman um efnahagsþvinganir. 

Í þeirra hópi var dagblaðið Vremja Novostej þar sem lagt var út af fundi leiðtoganna á þann veg að þeir hefðu látið nægja að senda Rússum tóninn. Dagblaðið Rossískaja Gazeta gekk lengra og skoraði á ESB að endurmeta afstöðuna til „árásargirni Georgíumanna“ í deilunni.  

Í tilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu sagði að ákvörðun ESB væri hörmuð með þeim orðum að á síðustu tveimur árum hefðu Rússar vanist heimatilbúnum hindrunum af hálfu sambandsins í vegi umræddrar samvinnu.

Á sama tíma hélt Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í opinbera heimsókn til Tyrklands þar sem hann mun ræða um Georgíudeiluna við kollega sinn Ali Babacan. En deilan hefur varðað orkuöryggi Tyrkja þar sem hluti gassins sem leitt er um Georgíu fer vestur til Tyrklands.

Frakkar fara nú með forsæti í Evrópusambandinu og á mánudag mun Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti fara til viðræðna í Moskvu og Tíblisi, höfuðborg Georgíu, ásamt José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Javier Solana, helsta talsmanni sambandsins í utanríkismálum.

Bandaríkjastjórn, sem átt hefur í náinni samvinnu við Georgíu í hryðjuverkastríðinu, hyggst einnig leggja sitt á vogarskálarnar og mun Dick Cheney varaforseti sýna stuðning stjórnar sinnar í verki þegar hann heldur til Georgíu og Úkraínu í dag, en báðar þjóðirnar hafa sóst eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið, NATO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert