Bush harmar mannfall úr röðum saklausra borgara

George W. Bush er fullur iðrunar.
George W. Bush er fullur iðrunar. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti segist harma það að saklausir borgarar hafi látið lífið í loftárás sem Bandaríkjaher gerði í vesturhluta Afganistans nýverið. Frá þessu greindi skrifstofa forseta Afganistans í dag.

Bush sagði þetta á fjarfundi með Hamid Karzai, forseta Afganistans, en forsetarnir halda reglulega fjarfundi með aðstoð myndbandstækninnar.

Fram kemur í tilkynningu frá forsetaskrifstofunni að Bush harmi það sem gerðist í Shinand. „Ég deili með þér sorginni og íbúum Afganistans,“ er haft eftir Bush.

Að sögn afganskra embættismanna létust 90 saklausir borgarar í loftárás í Shinand hverfi Herat-héraðsins. Flestir þeirra sem létust voru börn og konur.

Bandaríkjaher heldur því staðfastlega fram að þeir hafi fellt 30 uppreisnarmenn og „fimm til sjö“ óbreytta borgara.

Málið hefur vakið mikið umtal og reiði meðal afganskra þingmanna og alþýðu. Auk þess hefur Karzai fordæmt árásina og kallað eftir því að settar verði nýjar starfsreglur um það hvernig erlendir hermenn hagi sér í starfi.

Hersveitir NATO, undir stjórn Bandaríkjamanna, Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórn Afganistan hafa samþykkt að rannsaka málið í sameiningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert