Palin ávarpar bandaríska kjósendur í dag

McCain og Palin.
McCain og Palin. AP

Um fátt annað hefur verið rætt á flokksþingi repúblikana undanfarna daga en útnefningu Söruh Palin sem varaforsetaefni John McCain. Hún hefur lítið komið opinberlega fram frá því McCain tilkynnti um útnefningu hennar með formlegum hætti. Hún mun hins vegar ávarpa bandaríska kjósendur í dag.

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um Palin, sem er ríkisstjóri Alaska, frá því hún var útnefnd. Umfjöllunin er ekki öll á jákvæðum nótum því mikið hefur verið skrifað um 17 ára gamla dóttur ríkisstjórans, sem er ófrísk og ógift. Þá hefur verið fjallað um rannsókn á þátt Palin í brottrekstri embættismanns í Alaska og auk þess hafa menn velt vöngum yfir pólitískum ferli hennar, en hún þykir vera óreynd og í raun óskrifað blað.

McCain, sem er nýorðin 72ja ára, og Palin verða útnefnd með formlegum hætti á flokksþinginu í dag. Þau munu glíma við Barack Obama, forsetaefni demókrata, og Joe Biden, varaforsetaefni demókrata, í forsetakosningunum. Aðeins eru um tveir mánuðir þar til bandarískir kjósendur munu ganga til kosninga, eða 4. nóvember nk.

Íhaldsmenn í Bandaríkjunum líst vel á að Palin sé mótfallin fóstureyðingum og styður skotvopnaeign. Í dag gefst Palin hins vegar tækifæri til að greina Bandaríkjamönnum frá sínum bakgrunni og framtíðarsýn.

Óhætt er að segja að McCain hafi komið mörgum að óvörum með því að útefna Palin, sem er 44 ára gömul, á fjöldafundi í Ohio fyrir fimm dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert