Kanadíska leikkonan og leikskáldið Carol Sinclair hefur verið kærð fyrir að halda tölvuviðgerðarmanni föngnum á heimili sínu. Viðgerðarmaður símafyrirtækisins var sendur þangað til að gera við nettengingu hennar.
Sinclair mun hafa eytt mörgum dögum í að fá símafyrirtækið ISP Aliant til að koma og laga tenginguna. Tölvufréttavefurinn vnunet.com skýrir frá því að samkvæmt Sinclair hafi hún verið þolinmóð fyrstu 20 skiptin sem hún hringdi í símafyrirtækið.
Hún segir að ekkert hafi gerst fyrr en að hún hermdi eftir karlmannsrödd, það bar árangur og viðgerðarmaður var sendur á heimili hennar daginn eftir.
Lögreglan segir að David Scott sem er 21 árs hafi ekki getað lagað tenginguna og þá hafi Sinclair sturlast og sagt honum að hann færi ekki fet fyrr en tengingin væri komin í lag og að hún ætlaði að halda honum í gíslingu.
Samkvæmt lögreglunni mun Sinclair hafa látið að því liggja að hún hefði aðgang að skotvopni í íbúðinni.
Tæknimaðurinn slapp með því að ljúga að Sinclair að hann gæti lagað vandann með því að ná í disk út í bílinn sinn en í stað þess að snúa aftur með diskinn ók hann á næstu lögreglustöð og kærði atburðinn.
Sinclair sem segist vera Búddisti og friðarsinni segir ásakanirnar vera rangar.